Færsluflokkur: Bloggar
Jæja, kominn tími á nýja bloggfærslu. Hef verið á kafi í Önnum að undanförnu þannig að lítill tími hefur gefist til að tjá mig hérna á meðan.
Var í brúðkaupi í gær sem haldið var í Félagsheimili Orkuveitunnar í Elliðadalnum. Steinunn og Stefán voru gefin saman af Allsherjargoðanum í regnúðanum við Elliðaárdalnum Mikill sjarmi yfir þessar athöfn.
Gjafir voru afþakkaðar en hins vegar komu gestir með söngolíu og e-ð matarkyns með sér. Ég kom með líter af Íslensku brennivíni og harðfisk. Eftir matinn lét ég, eða öllu heldur Eiríkur Ágúst, flöskuna (þessa vinstri grænu eins og hann kallaði hana) og harðfiskinn ganga einn hring um borðin. Harðfiskurinn nánast kláraðist meðan 90% af söngolíunni kom til baka, sennilega vegna þess að þetta var lélegur árgangur.
IQ-vísitala okkar sjö sem sátum við sama borðið (Lonní, Baldur, Eiríkur, Oddný, Valdimar og Rósmarý) var sjálfsagt vel undir meðal greindarvísitölu þeirra 65 gesta sem voru í veislunni. Ekki vegna þess að sessunautar mínir séu eitthvað tæpir heldur vegna þess að í veislunni var ekki þverfótað fyrir sigurvegurum í Gettu Betur í gamla daga (Sveinn Guðmarsson, Ármann og Sverrir Jakobssynir, fjölmargir MR-sigurvegarar sem ég þekki bara í sjón). Þeir sem ekki höfðu sigrað í Gettu Betur voru pólitíkusar og/eða hernaðarandstæðingar s.s. eins og Katrín Jakobsdóttir, Svandís Svavarsdóttir, Auður Lilja formaður Ungliðahreyfingar Vg, Paul Nikolov og Sigurður Flosason. Fullt af skemmtilegum ræðum voru haldnar auk þess sem Svavar Knútur trúbador flutti nokkur lög. Þrælgóður performer þar á ferð. Svo endaði þetta á að nokkrir strákar (í hljómsveit sem ég man ekki hvað heitir) spiluðu fyrir dansi. Hafi brúðkaupið fyrir norðan verið frumlegt þá sló þetta öllu við. Fjörugt, frumlegt og fumlaust.
Innilega til hamingju með heitbindinguna Steinunn og Stefán og kærar þakkir fyrir frábæran dag og kvöld.
Um tvöleytið fórum við sjö með leigubíl niður í bæ. Byrjuðum á Boston og færðum okkur svo á B5. Verst hvað ég þekkti fáa þarna og var auk þess að leka niður af þreytu. Beið eftir leigubíl í hálftíma í röð við Lækargötuna og var kominn heim um kl. 6. Sofnaði yfir leik Wigan og Liverpool sem ég hafði tekið upp í gærdag.
Dagurinn í dag hefur farið í þynnku, göngutúr og sjónvarpsgláp. Allt sem ég var búinn að reikna með og undirbúa mig fyrir. Svona dagar eiga að vera frídagar.
Bloggar | 30.9.2007 | 23:55 (breytt 1.10.2007 kl. 22:54) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Samkynhneigð var einmitt fundin upp á Vesturlöndum. Hver ætli hafi fattað upp á henni? Snilldarlausn til að draga úr offjölgun mannkyns, ekki satt?
Verð hins vegar að taka undir gagnrýni Ahmadinejad á dauðarefsingar í USA. Má ekki styggja við USA líka?
Ahmadinejad segir samkynhneigð ekki þekkjast í Íran | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 24.9.2007 | 21:06 (breytt 25.9.2007 kl. 11:10) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Var svo heppinn að komast á opinn fund Ishmael Beah í hádeginu (og komast yfirhöfuð fyrir). Lagði nokkuð tímanlega af stað en umferðarteppa við gatnamót Miklubrautar og Grensásvegar gerði það að verkum að ég steig fæti inn í Iðnó kl. 12:08 og fyrirlesturinn átti að byrja kl. 12:10.
Öll borð voru upptekin en ég náði að smeygja mér inn í salinn og planta mér upp við vegg. Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, kynnti Ishmael og hvernig UNICEF tengist honum, manni sem lítur út fyrir að vera amerískur rappari í anda Snoop Dog nema í stað fléttanna er eins og Beah sé nýkominn úr 1200 snúninga þurrkara, allt upp í loft. Flottur karakter.
Beah sagði frá hræðilegri lífsreynslu sinni í heimalandi sínu, Afríkuríkinu Síerra Leóne. Hvernig hann, aðeins 13 ára gamall, var tekinn í her stjórnvalda og þvingaður inn í raunveruleika sem er svo fjarri þeim raunveruleika sem við búum við hér á Íslandi. Hann átti ekki annarra úrkosta völ en að verða útúrdópað, heilaþvegið morðtól stjórnvalda. Dópið deyfði hann öllum tilfinningum; að myrða varð daglegt brauð fyrir honum. Að horfast í í augu barns sem lifir og hrærist í þessum heimi er eins og að horfa í endalaust myrkur, sagði Beah. Móðir hans og tveir bræður voru drepin í stíðinu; herinn var eftir það hans fjölskylda.
Fyrir tilstuðlan Barnahjálpar Sameinuðu Þjóðanna, UNICEF, tókst að bjarga Beah frá glötun. Á þeim tíma sem hann var færður undir hendur UNICEF hafði hann engan hug á að breyta líferni sínu. Það þurfti sterk bein og mikla aðstoð til að fara inn á réttar brautir. Það tókst og hingað var hann kominn til að opna augu og eyru Vesturlandabúa, sem búa í vernduðu umhverfi frá því helvíti sem 300.000 börn lifa og hrærast í dags daglega í heiminum, búin vopnum til að verja sig, drepa óvininn og fá útrás fyrir hatrinu sem búið er að festa svo kyrfilega í þeirra saklausa huga.
Beah sagði það markmið margra barna, á þeim slóðum sem hann ólst upp, að komast til valda því með valdinu fylgja möguleikar á spillingu, með spillingunni fylgja möguleikar á efnislegum gæðum þannig að út frá þeim forsendum er vald eftirsóknarvert. Lái þeim hver sem vill. Þau vita einfaldlega ekki betur; fátækt knýr þau síðar til spillingaverka. Er ekki viss um að sú litla spilling sem fyrirfinnst hér á landi sé af sömu rótum.
Að fá tækifæri til að hlýða á frásögn Beah eru ekkert annað en forréttindi. Ég ber mikla virðingu fyrir honum. Keypti bókina sem hann skrifaði, Um langan veg - Frásögn herdrengs. Fékk meira að segja eiginhandaráritun frá þessari 26 ára hetju. Hvet alla til að lesa þessa bók; þó ég sé rétt byrjaður á henni, er ég nokkuð viss um að hún sé eftirminnileg og þroskandi lesning.
Bloggar | 24.9.2007 | 20:44 (breytt 24.10.2007 kl. 09:24) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Farsíminn slæmur fyrir heyrn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 19.9.2007 | 18:07 (breytt 20.9.2007 kl. 16:30) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fór í fyrradag með Helgu, Sigrúnu og Sigurlaugu á Þingvelli. Smurði mér nesti og svo brunuðum við á þennan heilaga stað goðanna, feldsins, laganna og kristnitökunnar. Ætlaði að telja hérna upp stað jarðfræðilegs klofnings en það er nú bara ferðamannabábilja sem hljómar vel í eyrum en flekaskil Ameríku- og Evrópuflekans liggja ekki um Almannagjá. Bara svo við höfum það á hreinu. Ég hef þó stundum litið á skilin og flekana sem myndræna gjá milli Ása- og Kristinna trúarbragða.
Það er kannski tímanna tákn að koma með þessa leiðréttingu nú á tímum þar sem við erum að átta okkur á því að það skiptir ekki öllu máli hverrar trúar, hvers kyns, kynþáttar (eða hvað þessir flokkar heita nú allir) við erum, því sameinuð stöndum vér en sundruð föllu vér; á nútímamáli: Það er betra að standa saman en í sundur (hvernig er annars hægt að standa í sundur?). Ása-, Kristnir- og Búddatrúarmenn og -konur geta auðveldlega lyndað saman. Það eru bara aðallega Hr. Runnar og Ósamar sem eiga erfitt, mjög erfitt með að kíkja saman á kaffihús. Þeirra sameiginlega tungumál er sömu ættar og örnefnin í titlinum á þessu bloggi. Ekki ætla mér það að ég muni þessi örnefni á Þingvöllum, ég fletti þeim upp í útskriftargjöf frá Rögnu og Halla (Þingvellir e. Björn Th. Björnsson). Þessi bók kemur mér endalaust á óvart og ósjaldan sem ég hef nýtt hana sem heimild.
Jæja, nóg um það. Við gengum í 1/2 klst. á göngustíg frá Valhöll meðfram vatninu og til baka, tíndum bláber og krækiber sem voru ágæt en höfðu þó greinilega frosið. Leituðum að laut til að borða nestið sem fannst að lokum svo við sátum þar í næðingi og nepju. Fórum þá rassablaut í þjónustumiðstöðina og fengum okkur heitt kakó til að ylja kroppinn. Svakalega var það notalegt.
Ræddum um svo margt og mikið að það er ekki pláss fyrir það hér. Vil bara taka fram hvað þetta var skemmtilegt allt saman og góður félagsskapur. Takk stúlkur
Bloggar | 18.9.2007 | 11:29 (breytt 28.9.2007 kl. 17:10) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hafi þeir verið að spæja þá eiga þeir þetta skilið. Vona bara að Hamilton haldi stigunum sínum.
McLaren úr leik í ár og sektað um 100 milljónir dollara | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 13.9.2007 | 17:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þetta kom manni svolítið í opna skjöldu. En svo fór ég að hugsa. Ef það ætti að reka e-n úr Spaugstofunni, þá væri það Randver.
Mér fannst Randver bestur á sviði; sá hann leika fyrir um 20 árum síðan og hann átti sviðið. Hins vegar fannst mér hann vera uppfyllingarefni hjá Spaugstofunni, hugsanlega mikilvægur fyrir heildina, það er ekki mitt að meta. Ég fann fyrir frumleika hjá hinum fjórum sem kom algerlega frá hjartanu. E-ð sem ég fann ekki hjá Randveri. En það mun örugglega taka eitthvað gott við hjá Randveri.
Ætli krafan um betri rekstrarafkomu RÚV ohf. hafi eitthvað að segja um rekstur Randvers? Spyr sá sem ekki veit.
Randver hættir í Spaugstofunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 13.9.2007 | 12:21 (breytt 20.9.2007 kl. 21:32) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Merki Vodafone sást í Símaauglýsingunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 12.9.2007 | 14:56 (breytt kl. 14:58) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ég hef tileinkað mér jákvætt viðmót, held ég, allt mitt líf. Hugarfarið mætti stundum læra af viðmótinu.
Til dæmis hrósa ég mjög oft frænkum mínum, Andreu Ýri (8 ára) og Tinnu Þóreyju (3ja ára), svo þær heyri. Svo kom frá þeirri þriggja ára við matarborðið: mamma, ég er svo ánægð með þig. Þetta bræddi náttúrulega systur mína svo hún nánast lak niður í gólf. Það mætti halda stundum að hún Tinna sé 33 ára en ekki 3ja.
Önnur saga af Helgu vinkonu sem var að passa fimm ára frænku sína. Hún spurði Helgu af hverju það svæfi enginn við hliðina á henni og Helga svaraði: af því að ég á ekki kærasta. Stelpan spyr á móti: er hann dauður? Nei, sagði Helga: ég er bara ekki búin að finna hann ennþá.
Morguninn eftir spyr frænkan: Ertu búin að finna kærastann?
Bloggar | 10.9.2007 | 10:10 (breytt 18.9.2007 kl. 09:21) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fór með mömmu að skoða Búseta-íbúð í Prestastíg í Grafarholti í hádeginu. Ágætis íbúð á 5. hæð með útsýni að Esjunni og Snæfellsjökli. Þegar við komum í Jónsgeislann kom fullorðin kona að bílnum. Ég vona að ég sé ekki að móðga hana með því að segja hana fullorðna en þetta hugtak er nú stórskrýtið og er hægt að nota yfir fullvaxinn (kominn á manndómsaldur) jafnt sem gamlan einstakling skv. orðabók. Reyndar getur fullorðinn einnig átt við um grófgert band. Ókey, segjum að hún hafi verið rétt tæplega fullorðin skv. skilgreiningu nr. 2.
Hún spyr hvort hún megi hringja úr gemsa hjá mér því hún væri læst úti. Það var auðvitað minnsta mál og ég bauð henni inn og kenndi henni á gemsann. Hún hringdi í dóttur sína sem virtist vera treg til að koma og opna fyrir þá gömlu en féllst á það fyrir rest. Hefði dóttir hennar bara séð skelfingarsvipinn á mömmu sinni þá hefði hún komið undir eins.
Svo spjölluðum við saman. Hún býr í gömlu, rauðu húsi sem er farið að stinga talsvert í stúf við umhverfið og hún búin að búa þarna í tugi ára og er ekkert á leið í burtu; gott hjá henni. Rétt áður en hún fór kom blaðberi með Fréttablaðið, í annað sinn í dag. Þá sagði sú gamla: Ég fæ aldrei fríblöðin til mín, ég er bara áskrifandi að Morgunblaðinu. Við það rétti ég henni Fréttablaðið, hafði náttúrulega ekkert að gera með tvö eintök. Þegar hún var komin út og á leið heim til sín snéri hún við og spurði: Bíddu... á ég ekki að borga fyrir símtalið? Ég neitaði því; sagði henni það væri bara ánægjulegt að geta orðið að liði.
Fjórum tímum síðar bankaði hún upp á með dóttursyni sínum og rétti mér nýjasta eintak Vikunnar (plastað) og dagblað. Hélt að hún væri að skila mér Fréttablaðinu en þá var þetta Moggi dagsins, takk fyrir.
Skilaboð dagsins: Það borgar sig að hjálpa og... fáið ykkur 3G
Sjáumst
Bloggar | 6.9.2007 | 18:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nýjustu færslur
- 5.6.2008 Tilviljanir?
- 12.5.2008 Eftir 5 mánaða bloggpásu
- 15.12.2007 Vísir til að draga úr líkum, kannski
- 14.12.2007 Viðskiptabann á USA
- 13.12.2007 Stórfrétt
Færsluflokkar
Bloggvinir
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar