Af Höggstokkseyri, Kagahólma, Brennugjá, Gálgaklettum og Drekkingarhyl

Fór í fyrradag með Helgu, Sigrúnu og Sigurlaugu á Þingvelli. Smurði mér nesti og svo brunuðum við á þennan heilaga stað goðanna, feldsins, laganna og kristnitökunnar. Ætlaði að telja hérna upp stað jarðfræðilegs klofnings en það er nú bara ferðamannabábilja sem hljómar vel í eyrum en flekaskil Ameríku- og Evrópuflekans liggja ekki um Almannagjá. Bara svo við höfum það á hreinu. Ég hef þó stundum litið á skilin og flekana sem myndræna gjá milli Ása- og Kristinna trúarbragða.

Það er kannski tímanna tákn að koma með þessa leiðréttingu nú á tímum þar sem við erum að átta okkur á því að það skiptir ekki öllu máli hverrar trúar, hvers kyns, kynþáttar (eða hvað þessir flokkar heita nú allir) við erum, því sameinuð stöndum vér en sundruð föllu vér; á nútímamáli: Það er betra að standa saman en í sundur (hvernig er annars hægt að standa í sundur?). Ása-, Kristnir- og Búddatrúarmenn og -konur geta auðveldlega lyndað saman. Það eru bara aðallega Hr. Runnar og Ósamar sem eiga erfitt, mjög erfitt með að kíkja saman á kaffihús. Þeirra sameiginlega tungumál er sömu ættar og örnefnin í titlinum á þessu bloggi. Ekki ætla mér það að ég muni þessi örnefni á Þingvöllum, ég fletti þeim upp í útskriftargjöf frá Rögnu og Halla (Þingvellir e. Björn Th. Björnsson). Þessi bók kemur mér endalaust á óvart og ósjaldan sem ég hef nýtt hana sem heimild.

Jæja, nóg um það. Við gengum í 1/2 klst. á göngustíg frá Valhöll meðfram vatninu og til baka, tíndum bláber og krækiber sem voru ágæt en höfðu þó greinilega frosið. Leituðum að laut til að borða nestið sem fannst að lokum svo við sátum þar í næðingi og nepju. Fórum þá rassablaut í þjónustumiðstöðina og fengum okkur heitt kakó til að ylja kroppinn. Svakalega var það notalegt.

Ræddum um svo margt og mikið að það er ekki pláss fyrir það hér. Vil bara taka fram hvað þetta var skemmtilegt allt saman og góður félagsskapur. Takk stúlkur Joyful


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk sömuleiðis félagi! Næðingurinn og nepjan var sko tær snilld! Íslenskir víkingar, já, takk!

Helga Árna (IP-tala skráð) 20.9.2007 kl. 12:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband