Færsluflokkur: Bloggar

Tilviljanir?

Er að lesa bók eftir Ágúst Bogason sem heitir „Hvað gerðist 11. september?“. Hef áhuga á ýmsum samsæriskenningum þó ég taki ekki endilega undir þær.

Fékk tölvupóst frá Stjána í dag þar sem bent er á ýmis undarleg sögutengsl á milli Abraham Lincoln og John F. Kennedy s.s. að þeir voru báðir skotnir á föstudegi, ritari Lincoln's hét Kennedy og ritari Kennedy's hét Lincoln, Lincoln var skotinn í leikhúsi sem bar heitið Ford og Kennedy var skotinn í Lincoln bifreið frá Ford framleiðandanum og að lokum, Lincoln var í staddur í Monroe í Maryland viku áður en hann var skotinn meðan Kennedy var með Marylin Monroe viku áður en hann var skotinn. Tilviljun?

Eftir að hafa lesið póstinn frá Stjána fór ég að skoða bækling frá nýja vinnustaðnum mínum, Borgaskóla og fór að spá. Nafnið á þeim skóla er úr takti við nöfnin í þeim skólum sem ég hef starfað við hingað til. Laugalækjarskóli, Árbæjarskóli og Menntaskólinn við Sund Woundering

Jæja, hættur að pæla, farinn út að moka möl.


Vísir til að draga úr líkum, kannski

Þetta er ánægjulegt skref í rétta átt. Við skulum vona að öll ríki heims skrifi undir Kaupmannahafnarbókunina 2009. Þetta er jú bara bara vegvísir, Balí-vegvísirinn; stefna að markmiði sem dregur úr líkum á stórfelldum loftlagsbreytingum eins og kemur fram í fréttatilkynningu frá umhverfisráðuneytinu. USA kvittar ekki undir nema orðalagið í þessum efnum sé mjög loðið.
mbl.is ,,Sögulegt samkomulag”
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðskiptabann á USA

Nú virðist sem Bandaríkin hafi náð Japan og Kanada með sér í vitleysuna. En ætli þau standi svo ekki ein eftir eins og þau hafa lengst af gert. Og ég er kominn með lausn á þessi CO2 útblástursmál: Setjum viðskiptabann á Bandaríkin eins og þau hafa löngum gert við aðrar þjóðir sem haga sér ekki eins og þau vilja. Er það ekki það eina sem skilst þar; að láta hart mæta hörðu. Þau vakna fyrst úr dvalanum þegar að það þrengir að eigin pyngju.

Það er reyndar mjög barnalegt að tala um Bandaríkin sem samheiti þess illa. Þar býr nefnilega meirihluti sem er andvígur núverandi stefnu Hr. Runna.


mbl.is Stífar samningaviðræður á Bali
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórfrétt

Ég vildi bara láta vita af því að ég er á lífi. Ég hitti nefnilega Aðalheiði og Eirík á Kaffi Mílanó í gær sem voru farin að óttast um mig þar sem ég hef ekkert skrifað hérna í tíð háa herrans.

Tvær ástæður liggja þar að baki. Í fyrsta lagi hafði ég lítið gaman af því að blogga, velti því fyrir mér hvað ég væri að fá til baka og hvort einhver hefði gaman af því að lesa bullið í manninum með fullkomnunaráráttuna.

Í öðru lagi hefur tölvan mín ekki náð sambandi við umheiminn. Ég hefði náttúrulega getað bloggað áfram, bara fyrir sjálfan mig án þess að leyfa ykkur að lesa, rétt eins og ég gerði í dagbókinni í rúm 10 ár.

Það hefur samt ýmislegt drifið á daga mína síðan ég bloggaði hér síðast. Til dæmis ákvað ég að byrja í skóla eftir áramót og er farinn að hlakka heilmikið til. Samt smá kvíðinn líka því það eru rúmlega 10 ár síðan ég sat síðast á skólabekk og kannski kann ég ekki lengur að læra. Það verður bara að koma í ljós. Maður veit ekki fyrr en á reynir.


30%

Nú er um þriðjungur búinn af úrvalsdeildinni ensku og 30% framkvæmdastjóranna hafa þurft að taka pokann sinn. Stefnir í 100% í vor.

Verði Benitez rekinn þá vil ég ekki fá að horfa upp á leiðinlegan árangursbolta Mourinho; nei takk.


mbl.is Sex stjórar hættir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eigum raunhæfa möguleika...

á 5. sætinu. Ætli það sé ekki eini kosturinn við að vera í fimm liða riðli. Liðin í hinum riðlunum eiga raunhæfa möguleika... á sexta sætinu.
mbl.is Ísland með Hollandi og Noregi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég sendi honum sjöuna mína

Horfði á Laugardagslögin í gærkvöldi og hafði nokkuð gaman af. Það sem stóð upp úr var hinn síungi Leifur Eiríksson. Nafnið getur ekki verið mikið þjóðlegra og hann hefur lifað tíund af tíma kristni á Íslandi.

Þegar hann var spurður hvort hann ætti ipod svaraði hann: „Ég sendi honum sjöuna mína“ og átti við það þegar hann kaus Magna í Rockstar. Svo samdi hann og flutti ljóð sem er spegilmynd um ofurgræðgina sem gengur nú yfir á þessu landi:

Punktur is, punktur is

það er gaman að hækka og hækka.

Punktur is, punktur is

finna sig vera að stækka og stækka

þeir stóru mega sín mest

og ætla að eignast sem flest.

Punktur is, punktur is

eignagleðinnar njóta sem mest.

Punktur is, punktur is

einkaþotan er markmiðið næst.

Punktur is, punktur is

því þá svífur andinn sko hæst.

 

Best að enda þennan pistil á svari Leifs þegar hann var spurður hvort hann fari oft til útlanda:

 

Eg er kominn upp á það

allra þakkarverðast

að sitja kyrr á sama stað

en samt að vera að ferðast.

(Jónas Hallgrímsson)


9, 10 eða 11

Nú hef ég lokað fyrir síðustu könnunina á síðunni. Spurt var: Hvað eru margir leikmenn í hvoru knattspyrnuliði? Svarmöguleikarnir voru 9, 10 eða 11. Það skemmtilega/undarlega við þessa spurningu er að allir svarmöguleikarnir eru réttir. Á Námsmatsstofnun forðuðumst við þess konar spurningar eins og heitan eldinn eða rauðan dauðann. Þar hefði spurningin verið skilgreind betur. Er átt við meistaraflokk? Er átt við í upphafi leiks? Er átt við alla leikmenn í hvoru liði?... o.s.frv.

Í upphafi var tilgangurinn með spurningunni að sjá hvort að merihluti lesenda síðunnar hefði mikinn áhuga á fótbolta. Og svarið er...

Já; 56% svarenda telja að 11 leikmenn séu í hvoru knattspyrnuliði meðan 40% þeirra telja fjöldann 9. Könnunin er samt óendanlega langt frá því að vera vísindaleg sem er barasta allt í lagi. Þú ertu jú hérna bara til að drepa tímann, eins og ég Whistling

Nú langar mig að vita hvort þú lesir stjörnuspár. Ég þekki fólk sem les spána reglulega fyrir sitt stjörnumerki og jafnvel fyrir stjörnumerki barnanna sinna, maka og fleiri. Það er þitt að skilgreina hvað felst í að „lesa stjörnuspá.“


Stóra Síma- og DV málið

Nú er ég búinn að leysa Síma- og DV málið. Fór í verslun Símans í Ármúla og fékk pappír yfir rétthafabreytingu á eldgamla símanúmerinu mínu, eins og síðustu fyrirmæli símadömunnar hjá Símanum hljóðuðu upp á. Þegar ég var byrjaður að fylla út í rétthafabreytinguna var endanlega niðurstaðan sú að afgreiðslustúlkan þurfti bara að aftengja mig við númerið og málið dautt, bara sísvona. Það eina sem ég átti eftir að gera var að bíða í hálftíma eftir að fá endurgreitt frá því í ágúst. Það gekk eftir; þolinmæði þrautir vinnur allar.

Verð bæði að hrósa og skamma Símann hf. fyrir þetta. Skamm fyrir að draga mig á asnaeyrunum í þrjá mánuði og hrós fyrir að sjá að sér. Og þá er það DV.

Lausnin á því máli fólst í að segja upp áskriftinni að Sýn2. Fékk DV á mánudaginn s.l. en ég sagði upp Sýn2 í gær þannig að ég ætti að vera orðinn laus við DV. Í leiðinni er ég laus við enska boltann, græði bæði tíma og peninga á því. Eini gallinn er að ég missi af nokkrum spennandi leikjum en ég lifi það nú af Joyful


Ingibjörg

IngibjörgÞetta er hún Ingibjörg, oftast kölluð Inga. Hún kom til mín í haust þar sem hún var læst úti, eins og ég sagði ykkur frá. Hún kom við hjá mér í dag, með 4 Séð og Heyrt blöð, tvær Vikur og eitt OK. Hún tekur svo mikla orku að þegar ég ætlaði að taka mynd af henni var myndavélin rafmagnslaus. Ég skellti því geyminum í hleðslu og náði þessari úrvalsmynd af henni Ingibjörgu.

Við spjölluðum saman um allt milli himins og jarðar. Hún sagði mér frá því að hún ætti 10 ára kött, stæði sjálf á sjötugu, væri illa við Nóatún, horfði á Leiðarljós á hverjum degi, þekkti Tolla listamann, væri berdreymin, væri ágæt til heilsunnar, rak hænsnabú hér áður fyrr svo ég stikli á stóru.

Einnig komst ég að því að við erum á öndverðu meiði í pólitík. Fyrr á árum var hún vinstri manneskja en hallaði sér til hægri þegar hún uppgötvaði hvað hún þyrfti að borga mikinn eignarskatt. Þegar hægra aflið komst til valda var eignarskatturinn afnuminn og hún sælli en Ella.

Ég heyrði, á unglingsaldri, af þessari tilhneigingu fólks að verða íhaldssamara með aldrinum. Fyrir mér fór þetta illa saman, þ.e. að eldast og færast til hægri (þarna setti ég samansemmerki milli íhaldsins og hægri stefnu). Ég hélt að með aldrinum yrði maður skynsamari, samúðarfyllri, skilningsríkari, víðsýnni og þar fram eftir götunum. En svo virðist ekki vera. Maður verður víst þröngsýnn eiginhagsmunarseggur, ekki satt? Ég held að Ingbjörg ætti að endurskoða stjórnmálaskoðanir sínar, því hún er greinilega gjafmild.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband