Af Höggstokkseyri, Kagahólma, Brennugjá, Gálgaklettum og Drekkingarhyl

Fór í fyrradag með Helgu, Sigrúnu og Sigurlaugu á Þingvelli. Smurði mér nesti og svo brunuðum við á þennan heilaga stað goðanna, feldsins, laganna og kristnitökunnar. Ætlaði að telja hérna upp stað jarðfræðilegs klofnings en það er nú bara ferðamannabábilja sem hljómar vel í eyrum en flekaskil Ameríku- og Evrópuflekans liggja ekki um Almannagjá. Bara svo við höfum það á hreinu. Ég hef þó stundum litið á skilin og flekana sem myndræna gjá milli Ása- og Kristinna trúarbragða.

Það er kannski tímanna tákn að koma með þessa leiðréttingu nú á tímum þar sem við erum að átta okkur á því að það skiptir ekki öllu máli hverrar trúar, hvers kyns, kynþáttar (eða hvað þessir flokkar heita nú allir) við erum, því sameinuð stöndum vér en sundruð föllu vér; á nútímamáli: Það er betra að standa saman en í sundur (hvernig er annars hægt að standa í sundur?). Ása-, Kristnir- og Búddatrúarmenn og -konur geta auðveldlega lyndað saman. Það eru bara aðallega Hr. Runnar og Ósamar sem eiga erfitt, mjög erfitt með að kíkja saman á kaffihús. Þeirra sameiginlega tungumál er sömu ættar og örnefnin í titlinum á þessu bloggi. Ekki ætla mér það að ég muni þessi örnefni á Þingvöllum, ég fletti þeim upp í útskriftargjöf frá Rögnu og Halla (Þingvellir e. Björn Th. Björnsson). Þessi bók kemur mér endalaust á óvart og ósjaldan sem ég hef nýtt hana sem heimild.

Jæja, nóg um það. Við gengum í 1/2 klst. á göngustíg frá Valhöll meðfram vatninu og til baka, tíndum bláber og krækiber sem voru ágæt en höfðu þó greinilega frosið. Leituðum að laut til að borða nestið sem fannst að lokum svo við sátum þar í næðingi og nepju. Fórum þá rassablaut í þjónustumiðstöðina og fengum okkur heitt kakó til að ylja kroppinn. Svakalega var það notalegt.

Ræddum um svo margt og mikið að það er ekki pláss fyrir það hér. Vil bara taka fram hvað þetta var skemmtilegt allt saman og góður félagsskapur. Takk stúlkur Joyful


Jón spæjó

Hafi þeir verið að spæja þá eiga þeir þetta skilið. Vona bara að Hamilton haldi stigunum sínum.


mbl.is McLaren úr leik í ár og sektað um 100 milljónir dollara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rekstur Randvers og RÚV ohf.

Þetta kom manni svolítið í opna skjöldu. En svo fór ég að hugsa. Ef það ætti að reka e-n úr Spaugstofunni, þá væri það Randver.

Mér fannst Randver bestur á sviði; sá hann leika fyrir um 20 árum síðan og hann átti sviðið. Hins vegar fannst mér hann vera uppfyllingarefni hjá Spaugstofunni, hugsanlega mikilvægur fyrir heildina, það er ekki mitt að meta. Ég fann fyrir frumleika hjá hinum fjórum sem kom algerlega frá hjartanu. E-ð sem ég fann ekki hjá Randveri. En það mun örugglega taka eitthvað gott við hjá Randveri.

Ætli krafan um betri rekstrarafkomu RÚV ohf. hafi eitthvað að segja um rekstur Randvers? Spyr sá sem ekki veit.


mbl.is Randver hættir í Spaugstofunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt er þegar þrennt er

Nú er Síminn búinn að auglýsa Coke og Vodafone auk þess að upplýsa það að auglýsingin var ekki tekin upp fyrir tvö þúsund árum síðan heldur á því herrans ári 2007. „Einbeitið ykkur að því sem ykkur fer best úr hendi , við skulum sjá um trúboðin“, hugsa eflaust kirkjunnar menn.
mbl.is Merki Vodafone sást í Símaauglýsingunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

„Ertu búin að finna kærastann?“

Ég hef tileinkað mér jákvætt viðmót, held ég, allt mitt líf. Hugarfarið mætti stundum læra af viðmótinu.

Til dæmis hrósa ég mjög oft frænkum mínum, Andreu Ýri (8 ára) og Tinnu Þóreyju (3ja ára), svo þær heyri. Svo kom frá þeirri þriggja ára við matarborðið: „mamma, ég er svo ánægð með þig.“ Þetta bræddi náttúrulega systur mína svo hún nánast lak niður í gólf. Það mætti halda stundum að hún Tinna sé 33 ára en ekki 3ja.

Önnur saga af Helgu vinkonu sem var að passa fimm ára frænku sína. Hún spurði Helgu af hverju það svæfi enginn við hliðina á henni og Helga svaraði: „af því að ég á ekki kærasta.“ Stelpan spyr á móti: „er hann dauður?“ Nei, sagði Helga: „ég er bara ekki búin að finna hann ennþá.“

Morguninn eftir spyr frænkan: „Ertu búin að finna kærastann?“


Nokia, connecting people

Fór með mömmu að skoða Búseta-íbúð í Prestastíg í Grafarholti í hádeginu. Ágætis íbúð á 5. hæð með útsýni að Esjunni og Snæfellsjökli. Þegar við komum í Jónsgeislann kom fullorðin kona að bílnum. Ég vona að ég sé ekki að móðga hana með því að segja hana fullorðna Errm en þetta hugtak er nú stórskrýtið og er hægt að nota yfir fullvaxinn (kominn á manndómsaldur) jafnt sem gamlan einstakling skv. orðabók. Reyndar getur „fullorðinn“ einnig átt við um grófgert band. Ókey, segjum að hún hafi verið rétt tæplega fullorðin skv. skilgreiningu nr. 2.

Hún spyr hvort hún megi hringja úr gemsa hjá mér því hún væri læst úti. Það var auðvitað minnsta mál og ég bauð henni inn og kenndi henni á gemsann. Hún hringdi í dóttur sína sem virtist vera treg til að koma og opna fyrir þá gömlu en féllst á það fyrir rest. Hefði dóttir hennar bara séð skelfingarsvipinn á mömmu sinni þá hefði hún komið undir eins.

Svo spjölluðum við saman. Hún býr í gömlu, rauðu húsi sem er farið að stinga talsvert í stúf við umhverfið og hún búin að búa þarna í tugi ára og er ekkert á leið í burtu; gott hjá henni. Rétt áður en hún fór kom blaðberi með Fréttablaðið, í annað sinn í dag. Þá sagði sú gamla: „Ég fæ aldrei fríblöðin til mín, ég er bara áskrifandi að Morgunblaðinu.“ Við það rétti ég henni Fréttablaðið, hafði náttúrulega ekkert að gera með tvö eintök. Þegar hún var komin út og á leið heim til sín snéri hún við og spurði: „Bíddu... á ég ekki að borga fyrir símtalið?“ Ég neitaði því; sagði henni það væri bara ánægjulegt að geta orðið að liði.

Fjórum tímum síðar bankaði hún upp á með dóttursyni sínum og rétti mér nýjasta eintak Vikunnar (plastað) og dagblað. Hélt að hún væri að skila mér Fréttablaðinu en þá var þetta Moggi dagsins, takk fyrir.

Skilaboð dagsins: Það borgar sig að hjálpa og... fáið ykkur 3G Halo

Sjáumst


Þolmörk

Það eru líka takmörk hvað við hin í heiminum þolum. Ég þoli til dæmis ekki yfirgang Hr. Runna.
mbl.is Petraeus: Takmörk fyrir því hvað herinn þolir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kom mér algerlega í opna skjöldu

Ég er svo hissa. Ég átti von á því að Hr. Runni færi með fjölskylduna í opinbera heimsókn á stað sem hann sjálfur hefur náð svo miklum árangri. Hann hefði getað skilið fjölskylduna eftir meðan hann héldi til Ástralíu á leiðtogafund. Fjölskyldan gæti hjálpað til við að klára verkið sem er alveg að verða lokið, vantar bara smá klink til að ljúka því eins vel og Hr. Runni sá fyrir sér... fyrir 5 árum síðan. Fjölskyldan væri þá í broddi fylkingar þeirra sem eru að bjarga heiminum frá hryðjuverkaógninni. Þetta er greinilega bara smá yfirsjón sem kemur fyrir á bestu bæjum.

Þetta kemst væntanlega í lag fyrir næstu heimsókn til... Írans.


mbl.is Bush laumað út úr Hvíta húsinu í skjóli nætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Étrússki

Fór á tónleikaNA í kvöld. Gerði mér dagamun, fór með vinum (Helgu, Gústa, Sigrúnu og Erni) á Caruso á undan og vorum komin í sætin okkar (ásamt Dóra) í Laugardalshöllinni rétt fyrir kl. 8. Ólíkt þeim upphitunum sem ég hef séð á tónleikum þá hitaði Norah Jones upp fyrir sig sem kom skemmtilega á óvart. Hún hitaði upp ásamt gítarleikara fyrir hálftómum salnum. Mér leið eins og á fótboltaleik hjá KR þar sem Landsbankinn kaupir bestu sætin fyrir Loft. Eftir upphitunina fylltist salurinn og maður gat notið tónleikanna án þess að skammast sín fyrir dræma mætingu Íslendinga á uppselda tónleika (þar sem miðarnir seldust upp á hálftíma fyrir þremur mánuðum).

Hef ekki farið á marga tónleika en ef ég á að raða þeim upp eftir skemmtanagildi þá voru þessir í sama flokki og SigurRósartónleikarnir í Montreal 2002; hreint afbragð. Algerir snillingar á hljóðfærin; sama hvort um var að ræða gítar, trommur, bassa, þverflautu, píanó, Wurlitzer-píanó (sem er hljóðfæri sem ég fíla í ræmur) eða raddbönd. Svo var rúsínan í pylsuendanum Norah sjálf með sinn heillandi persónuleika, rödd sem smýgur inn eins og fyrirhafnalaust fjólublátt flauel og þokki í þokkabót sem á fáa sinn líkan.

Sat við hliðina á snót sem dillaði sér í takt við tónlistina svo maður sveif með sem aldrei fyrr. Hún lifði sig svo inn í tónlistina að fyrir næst síðasta lagið hljóðaði hún á rússnesku: étrússki (í lauslegri þýðingu: ég trúi þessu ekki) en hún hafði beðið í ofvæni eftir þessu lagi allt kvöldið og var greinilega farin að óttast að það yrði ekki tekið.

Svo þegar heim var komið ræddum við Björn og Kristín saman um tónleikana en við Kristín erum sammála um það að ef við ættum að velja okkur tónleika úr öllu því úrvali tónlistarmanna sem til er í heiminum þá yrði Norah Jones líklega efst á óskalistanum. Ef ekki efst þá allavega næst efst. Heppin? Mangetak for meget í aften.


mbl.is Norah Jones í Laugardalshöll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Toppurinn

Vá hvað ég svaf vel í nótt enda mínir menn í skýjunum W00t Hef ekki sofið svona vel í margar vikur, reyndar er hægt að færa rök fyrir því að ég hafi ekki sofið svona vel síðan fyrir 5 árum þegar Liverpool var síðast á toppi deildarinnar; byrjaði þá glimmrandi vel, vann 9 af 12 fyrstu leikjunum og gerði 3 jafntefli. Þar af unnu þeir 7 leiki í röð í deildinni. Því miður kom risa slag í bakið í framhaldinu og liðið endaði í 5. sæti með 64 stig. Var þetta ekki tímabilið sem Houllier veiktist? Eða var það á tímabilinu á undan?

Owen var með 28 mörk á því tímabili, þar af 19 í deildinni. Sé alveg fyrir mér að Torres komi með annað eins afrek í vetur. Byrjar alla vega vel. Hann er með góða tækni, yfirsjón, góð hlaup, hraður og líkamlega sterkur. Vantar enn smá upp á að Kuyt og Voronin læri betur inn á hann og Torres á þá.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband