Færsluflokkur: Bloggar
Skrapp með mömmu austur fyrir fjall til Gunnþórs og fjölskyldu. Þegar við komum í stofuna blasti við okkur RISA stjörnukíkir sem Rebekka Sif fékk í afmælisgjöf. Hlakka til að fá stjörnur í augun þegar viðrar vel til loftárása og skilyrði góð til að kíkja á himingeiminn. Rebekka gaf mér svo rós í hnappagatið sem hún ræktaði sjálf og hafði pakkað inn í sellófón.
Horfðum á Victortia comes to Amerika. Ég vil ekki meina að kryddið sé heimskt en rosalega lagði hún mikið upp úr því að heilla kanann í borg englanna. Hún var að leita að hreiðri fyrir fjölskylduna og í þeirri leit tókst henni að fanga athygli löggunar sem benti henni á að spænska ökuskírteinið gilti ekki í landi frelsisins og tækifæranna Næst var sýnt frá því þegar hún tók bóklega prófið og var með heimilishjálpina í metersfjarlægð svona til að fá hjálp við erfiðu spurningarnar. Yfirsetukallinn gerði athugasemd þegar þær voru á spjalli en hún sagði að þær hafi verið að fjalla um hártískuna. Jeræt.
Stoppaði 2x á leiðinni í bæinn til að taka ljósmyndir af stórkostlegri litablöndu skaparans þarna uppi. Hvernig fer hann að þessu? Þessi sýn var alveg á heimsmælikvarða og geri aðrir betur.
Bloggar | 5.8.2007 | 13:38 (breytt kl. 14:10) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fékk ábendingu hér á blogginu við síðustu færslu að ég gæti fengið mér Sýn og lækkað við það kostnað á Sýn2. Ég hafði þá samband við áskriftardeild Sýnar og það stendur heima.
Geri maður heilsárssamning að áskrift að Sýn2 borgar maður 4171 kr. á mánuði í stað 4390 kr. Það gerir 50.022 kr. á ári.
Taki maður Sýn með í heilsársáskrift þá gerir það 7112 kr. á mánuði (8890 kr. án heilsárssamnings). Það gerir 85.344 kr. á ári.
Heilsársbinding enska boltans á Skjásporti kostuðu mig 28.092 kr. Mismunurinn eru 57.252 kr. á ári eða 4771 á mánuði milli þess að vera með Skjásport og Sýn+Sýn2. Vissulega miklu meira af sporti á Sýnarrásunum en ég er bara að sækjast eftir enska boltanum og fyrir það þarf ég að greiða 1830 kr. meira á mánuði. Allt blaður íþróttafréttamanna mætti koma frá Englandi. Þeir eru ekkert síðri án þess að ég vilji gera lítið úr íþróattafréttamönnum hjá 365.
Bloggar | 19.7.2007 | 14:35 (breytt kl. 14:42) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nú líst mér á mína menn. Búnir að ná í Spánverjann Fernando Torres frá Atletico Madrid, hinn hollenska Ryan Babel frá Ajax og ísraelska Demantinn Yossi Benayoun frá West Ham sem skrifaði undir í dag.
Það eru ekki nema 30 dagar í að óléttan á SÝN2 springi út. Þvílíkt tilhlökkunarefni og ég get varla beðið Eini gallinn við þetta allt saman er að nú þarf ég að borga 4.390 kr. í stað 2.341 kr. á mánuði. Þetta gera 24.588 kr. mismun á ári. Hverju á ég að sleppa í staðinn?
Bloggar | 12.7.2007 | 21:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Síðasta föstudag rallaði ég með mömmu norður í land. Tilefnið var brúðkaup Ómars frænda og Rutar.
Rall er kannski ekki rétta orðið því mamma er orðin svo dönnuð að hún hélt sér á löglegum hraða langleiðina, eða þar til Hanna tók fram úr henni. Þar flaug skynsemin, kannski vegna þess að ég var að stríða henni svolítið. Hringdi í hana, hún tók upp símann en fattaði fullfljótt hvað væri í gangi. En mikið óskaplega hló hún skemmtilega mikið eftir þetta. Ég fílaði það í tætlur.
Á laugardeginum fórum við Kristín, Björn og stelpurnar á Húsavík og kíktum til Róberts og Selmu. Þau búa á frábærum stað á Húsavík, í vel innréttað hús með góðum palli á skjólstæðum stað og alles. Gæti alveg hugsað mér að búa þarna. Róbert er sjávarútvegsfræðingur og rekur fiskvinnslu; hann sagði okkur Birni að kvótinn hefði þrefaldast á þremur árum. Hvaða rugl er það?
Þá var brunað á Akureyri, skellt sér í nýju gráu jakkafötin og vorum komin að Gáseyri rétt fyrir kl. 17:30. Sá þar að ef ég hefði viljað vera eins og allir hinir þá hefði ég átt að mæta í þeim svörtu. Skondið hvað tískan er einsleit hér á landi. Ætla mér að nota þau svörtu við jarðarfarir og eiga þau lengi og því keypti ég þessi gráu. Það er líka svo mikið búið um að vera hjá mér að undanförnu, jarðaföt, fertugsafmæli og brúðkaup þannig að ég þarf að eiga slitsterk föt eða nóg af þeim
Ómar var að sjálfsögðu mættur í eigið brúðkaup ásamt um 100 gestum. Rut kom svo á brúðabílnum, stórum Scania trailer, sem var skreyttur tilheyrandi skrauti; reyndar engar dósir í eftirdragi en aftan á bílstjóraklefanum stóð: Ný gift. Gaman að því hvað þetta var allt saman frumlegt. Þetta var annað útibrúðkaupið sem ég fór í. Pabbi og Atie giftu sig við Þjórsá fyrir 20 árum síðan.
Hafði heyrt af því að Ómar myndi sjá fyrir nægri söngolíu í veislunni sjálfri og það stóð heima. Kampavín í fordrykk, rauðvín og/eða hvítvín með matnum, ljóblá bolla og bjór eftir mat, lá við í tonnavís.
Fór tvisvar í sundur í Akureyrarlaug sem að mínu viti er ein besta laug landsins, lítil hætta á að detta á sleipum gólffletinum og nóg af tækjum og rennibrautum fyrir smáfólkið. Tinna fór í regnbogabrautina og svo viðstöðulaust upp aftur þegar hún kom niður. Ég náði að synda samtals einn km í lauginni en sund er ein besta hreyfingin sem völ er á. Svo sækir maður brúnku þegar sú gula sýnir sig líkt og hún hefur gert að undanförnu
Bloggar | 12.7.2007 | 13:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hún Anna systir mín tók upp á því sl. sunnudag að verða fertug. Hún hélt upp á það sl. laugardag með pompi og prakt á Sólon. Hennar nánasta fjölskylda og vinir komu upp úr kl. 18 og hún bauð upp á þrírétta máltíð sem var meira en lítið ljúffeng. Fordrykkurinn var ekki síðri.
Hún mætti á svæðið með nýja klippingu og nýjan kjól utan um bumbubúann. Vá hvað hún var flott. Eitt það fallegasta sem ég sé í þessum heimi eru óléttar konur. Hún er sko ólétt og á að eiga í september. En það besta við hana í veislunni var hvað hún var létt, þrátt fyrir að vera ólétt (hver samdi þetta tungumál, sko íslenskuna?).
Svo komu aðrir gestir upp úr kl. 21, m.a. eitt gæsadæmi með tilheyrandi látum. Eftir Sólon fórum við systkinin, fyrir utan Önnu, á Q-barinn. Tónlistin þar var að megninu til frá 9. áratugnum sem var fínt fyrir okkur gamla liðið. Dönsuðum frá okkur allt vit, mátti reyndar ekki við því en ég var svo búinn í löppunum að ég fór út og sat í veðurblíðunni. Fékk far heim með Gunnþóri, Kristínu og Tóta kl. 4 sem er bara nokkuð snemmt. Á tveimur djömmum þar á undan kom ég heim um kl. 6 þannig að eigum við ekki að segja að ég sé að þroskast.
Enn og aftur til hamingju systir góð.
Bloggar | 4.7.2007 | 18:09 (breytt 13.7.2007 kl. 09:37) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Nú er ég í hlutverki passasams manns. Er svo lánsamur að passa að Andrea frænka mín geri ekki einhvern óskunda, sem sagt að hjálpa henni að skunda.
Fyrsta skundið fólst í að reikna sem henni finnst mjög gaman. Hún reiknar nú í bók sem heitir Stærðfræðisnillingarnir, dugir ekkert minna.
Annað skundið felst í að elda. Það skund skal vera bragðgott eftir staðgóðan morgunverð en staðgóður morgunverður merkir næringaríkur morgunverður (vissi það ekki áður). Stefnir í að hádegismaturinn samanstandi af pylsum, þær eru ágætar þó deila megi um hollustuna.
Bloggar | 12.6.2007 | 10:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég tók Dóra á orðinu og gerðist bloggari. Af hverju ekki? Er hvort eð er hættur að skrifa dagbók svo hérna fæ ég tækifæri á að lát ljós mitt skína
Svo er það bara spurning hvað maður heldur lengi út. Er búinn að næla í einn bloggvin og stefni í að ná í annan fyrir vikulok.
Bloggar | 11.6.2007 | 23:24 (breytt 13.7.2007 kl. 09:44) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nýjustu færslur
- 5.6.2008 Tilviljanir?
- 12.5.2008 Eftir 5 mánaða bloggpásu
- 15.12.2007 Vísir til að draga úr líkum, kannski
- 14.12.2007 Viðskiptabann á USA
- 13.12.2007 Stórfrétt
Færsluflokkar
Bloggvinir
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar