Ingibjörg

IngibjörgÞetta er hún Ingibjörg, oftast kölluð Inga. Hún kom til mín í haust þar sem hún var læst úti, eins og ég sagði ykkur frá. Hún kom við hjá mér í dag, með 4 Séð og Heyrt blöð, tvær Vikur og eitt OK. Hún tekur svo mikla orku að þegar ég ætlaði að taka mynd af henni var myndavélin rafmagnslaus. Ég skellti því geyminum í hleðslu og náði þessari úrvalsmynd af henni Ingibjörgu.

Við spjölluðum saman um allt milli himins og jarðar. Hún sagði mér frá því að hún ætti 10 ára kött, stæði sjálf á sjötugu, væri illa við Nóatún, horfði á Leiðarljós á hverjum degi, þekkti Tolla listamann, væri berdreymin, væri ágæt til heilsunnar, rak hænsnabú hér áður fyrr svo ég stikli á stóru.

Einnig komst ég að því að við erum á öndverðu meiði í pólitík. Fyrr á árum var hún vinstri manneskja en hallaði sér til hægri þegar hún uppgötvaði hvað hún þyrfti að borga mikinn eignarskatt. Þegar hægra aflið komst til valda var eignarskatturinn afnuminn og hún sælli en Ella.

Ég heyrði, á unglingsaldri, af þessari tilhneigingu fólks að verða íhaldssamara með aldrinum. Fyrir mér fór þetta illa saman, þ.e. að eldast og færast til hægri (þarna setti ég samansemmerki milli íhaldsins og hægri stefnu). Ég hélt að með aldrinum yrði maður skynsamari, samúðarfyllri, skilningsríkari, víðsýnni og þar fram eftir götunum. En svo virðist ekki vera. Maður verður víst þröngsýnn eiginhagsmunarseggur, ekki satt? Ég held að Ingbjörg ætti að endurskoða stjórnmálaskoðanir sínar, því hún er greinilega gjafmild.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband