Færsluflokkur: Ferðalög
Þá er bulluferðin búin
ég orðinn lúinn
2 stig í súginn
ég peningum rúinn.
Þetta er allt satt nema að ég er ekki lengur lúinn enda búinn að hvíla mig vel eftir heimferðina... og svo er ég ekkert peningum rúinn (þrátt fyrir feita reikninga sem biðu mín heima)... nú stigin 2, Liverpool átti ekkert meira skilið en eitt.
Ferðin byrjaði ekkert allt of vel því þegar við komum til Manchester fylgdi enginn farangur með okkur Stjána. Ástæðuna mátti rekja til þess að við fengum sæti á Saga Class (sem ég hef aldrei orðið svo frægur fyrir að prófa áður). Sætin fengum við á síðustu stundu en farangurinn fékk hins vegar engin sæti og því fór sem fór. Við Stjáni vorum því orðnir rónalegir og illa lyktandi á sunnudagskvöldið þegar töskurnar komu loks. Við gistum á Victoria & Albert hótelinu sem er flott gamaldags hótel (í 150 ára húsi sem er fyrrum vörugeymsla).
Við tókum svo laugardaginn snemma og fórum í United Megastore þar sem hægt var að kaupa allskyns varning (og drasl) og þar var vart þverfótað fyrir kaupglöðum aðdáendum sem ég þoldi illa svo ég fór rakleiðis út og beið þar eftir feðgunum Herði og Héðni. Við þrír fórum svo í tjald aðdáenda (fan zone) þar sem hægt var að spila fótbolta tölvuleiki, fara í pílukast, horfa á beina útsendingu frá vellinum (viðtöl) eða þætti um United, kaupa og drekka Budwiser svo fátt eitt sé nefnt.
Vorum sestir í sætin okkar rúmlega klst. fyrir leik. Með aðgöngumiðanum fylgdi tilkynning þar sem kom fram að ekki ætti að sýna andstæðingum United stuðning. Þegar Wigan liðið var kynnt í hátalarakerfinu púuðu 70 þúsund United aðdáendur ákaft (þvílíkur barnaskapur og óþroski). Fyrir leikinn var hávær tónlist spiluð og hugtakið múgæsing var mér efst í huga.
Markalaust var í fyrri hálfleik og ég spurði sessunaut minn hvaðan hann væri. Noregur var svarið og ég sagði honum sem stoltur Norðurlandabúi að ég kæmi frá Íslandi. Honum þótti það nú lítið merkilegt ekki síst þegar mér varð á að tilkynna honum að ég væri Liverpool aðdáandi og við félagarnir ætluðum að fara á Anfield á morgun. Veit ekki hvað ég var að spá enda fékk ég illt augnaráð í kjölfarið. United yfirspilaði svo Wigan liðið í seinni hálfleik og sigrðaði verðskuldað 4-0.
Þá var ekkert annað að gera en að samfagna með feðgunum og býða spenntur eftir Anfield, Mekka fótboltans. Steve nokkur sótti okkur á mánudagsmorgninum og við vorum mættir snemma á leikinn, eins og daginn áður og fengum sæti gegnt The Kop, frægustu áhorfendastúku á þessum hnetti. Magnað hvað völlurinn var lítill, allt minna í sniðum en ég hafði gert mér í hugarlund eftir að hafa horft á aðeins fleiri en einn leik af Anfield í kassanum.
Svo tók við hápunkturinn í ferðinni. Youll never walk alone var kyrjað sem aldei fyrr; þvílík stemning og ég söng hástöfum um leið og ég tók stemninguna upp á mynd og hljóð. Fór svo álíka langt niður og ég fór upp þegar heim kom og ég hlustaði á hvað ég er hræðilegur söngvari. Held þessari upptöku bara fyrir mig til að minna mig á að stilla á mute næst þegar ég ætla að syngja hástöfum.
Liverpool spilaði ágætlega í fyrri hálfleik, fengu þrjú dauðafæri og skoruðu eitt mark en fengu á sig eitt rétt fyrir leikslok. Í upphafi seinni hálfleiks fengu mínir menn annað mark á sig en náðu að bjarga sér fyrir horn þegar táningurinn Torres jafnaði á annarri mínútu uppbótartímans.
Við fjórir vorum sammála um að stemningin hafi verið betri á Anfield enda mikið sungið og trallað, einkum í fyrri hálfleik. Leikirnir tveir buðu upp á átta mörk og eftir situr minnisstæð ferð og gaman að hafa kynnst þessari hlið áhugamáls míns. Ætla að bíða með að fara á Stanley Park (nýja Liverpool völlinn) í nokkra tugi ára, er ekki þessi týpíska bulla (eins og ég vissi reyndar vel fyrir ferðina).
Tókum lest til London á mánudeginum, kíktum á Buckinham Palace, Big Ben og fleiri merkar byggingar. Við Stjáni fengum flugmiða hálftíma fyrir flug, að þessu sinni á almennu farrými, eins og almúginn. Draumurinn um betri tíð með blóm í haga til handa Liverpool sótti svo á mig þegar heim kom, eftir stutt ævintýri í landi englanna.
Ferðalög | 10.10.2007 | 12:43 (breytt 13.10.2007 kl. 00:07) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nú er ég farinn
meinilla farinn
og búinn að veraþverrandi þol
ekkert hægt að gera...nema skella sér til Manchester og Liverpool; á Old Trafford og Anfield. Ekki nema tæpir sex tímar í flug og tveir dagar í Anfield. Júhúúúú
Stína fína bauð mér í fertugsafmælið sitt í kvöld og svo á ég boð í fertugsafmæli Björns á morgun og ég vel mér akkúrat þessa helgi til að hverfa úr landi. Þá er ekkert annað að gera en að óska Birni og Stínu til hamingju með þennan áfanga með ósk um glimmrandi gleði í veislunni. Ég nálgast ykkur óðum í aldri og verð með ykkur í anda þó ég komist ekki í veislurnar
Ferðalög | 5.10.2007 | 12:06 (breytt kl. 12:21) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Nýjustu færslur
- 5.6.2008 Tilviljanir?
- 12.5.2008 Eftir 5 mánaða bloggpásu
- 15.12.2007 Vísir til að draga úr líkum, kannski
- 14.12.2007 Viðskiptabann á USA
- 13.12.2007 Stórfrétt
Færsluflokkar
Bloggvinir
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar