Færsluflokkur: Tónlist

Allsherjargoðinn í Elliðadalnum

Jæja, kominn tími á nýja bloggfærslu. Hef verið á kafi í Önnum að undanförnu þannig að lítill tími hefur gefist til að tjá mig hérna á meðan.

Var í brúðkaupi í gær sem haldið var í Félagsheimili Orkuveitunnar í Elliðadalnum. Steinunn og Stefán voru gefin saman af Allsherjargoðanum í regnúðanum við Elliðaárdalnum Mikill sjarmi yfir þessar athöfn.

Gjafir voru afþakkaðar en hins vegar komu gestir með söngolíu og e-ð matarkyns með sér. Ég kom með líter af Íslensku brennivíni og harðfisk. Eftir matinn lét ég, eða öllu heldur Eiríkur Ágúst, flöskuna (þessa vinstri grænu eins og hann kallaði hana) og harðfiskinn ganga einn hring um borðin. Harðfiskurinn nánast kláraðist meðan 90% af söngolíunni kom til baka, sennilega vegna þess að þetta var lélegur árgangur.

IQ-vísitala okkar sjö sem sátum við sama borðið (Lonní, Baldur, Eiríkur, Oddný, Valdimar og Rósmarý) var sjálfsagt vel undir meðal greindarvísitölu þeirra 65 gesta sem voru í veislunni. Ekki vegna þess að sessunautar mínir séu eitthvað tæpir heldur vegna þess að í veislunni var ekki þverfótað fyrir sigurvegurum í Gettu Betur í gamla daga (Sveinn Guðmarsson, Ármann og Sverrir Jakobssynir, fjölmargir MR-sigurvegarar sem ég þekki bara í sjón). Þeir sem ekki höfðu sigrað í Gettu Betur voru pólitíkusar og/eða hernaðarandstæðingar s.s. eins og Katrín Jakobsdóttir, Svandís Svavarsdóttir, Auður Lilja formaður Ungliðahreyfingar Vg, Paul Nikolov og Sigurður Flosason. Fullt af skemmtilegum ræðum voru haldnar auk þess sem Svavar Knútur trúbador flutti nokkur lög. Þrælgóður performer þar á ferð. Svo endaði þetta á að nokkrir strákar (í hljómsveit sem ég man ekki hvað heitir) spiluðu fyrir dansi. Hafi brúðkaupið fyrir norðan verið frumlegt þá sló þetta öllu við. Fjörugt, frumlegt og fumlaust.

Innilega til hamingju með heitbindinguna Steinunn og Stefán og kærar þakkir fyrir frábæran dag og kvöld.

Um tvöleytið fórum við sjö með leigubíl niður í bæ. Byrjuðum á Boston og færðum okkur svo á B5. Verst hvað ég þekkti fáa þarna og var auk þess að leka niður af þreytu. Beið eftir leigubíl í hálftíma í röð við Lækargötuna og var kominn heim um kl. 6. Sofnaði yfir leik Wigan og Liverpool sem ég hafði tekið upp í gærdag.

Dagurinn í dag hefur farið í þynnku, göngutúr og sjónvarpsgláp. Allt sem ég var búinn að reikna með og undirbúa mig fyrir. Svona dagar eiga að vera frídagar.


Étrússki

Fór á tónleikaNA í kvöld. Gerði mér dagamun, fór með vinum (Helgu, Gústa, Sigrúnu og Erni) á Caruso á undan og vorum komin í sætin okkar (ásamt Dóra) í Laugardalshöllinni rétt fyrir kl. 8. Ólíkt þeim upphitunum sem ég hef séð á tónleikum þá hitaði Norah Jones upp fyrir sig sem kom skemmtilega á óvart. Hún hitaði upp ásamt gítarleikara fyrir hálftómum salnum. Mér leið eins og á fótboltaleik hjá KR þar sem Landsbankinn kaupir bestu sætin fyrir Loft. Eftir upphitunina fylltist salurinn og maður gat notið tónleikanna án þess að skammast sín fyrir dræma mætingu Íslendinga á uppselda tónleika (þar sem miðarnir seldust upp á hálftíma fyrir þremur mánuðum).

Hef ekki farið á marga tónleika en ef ég á að raða þeim upp eftir skemmtanagildi þá voru þessir í sama flokki og SigurRósartónleikarnir í Montreal 2002; hreint afbragð. Algerir snillingar á hljóðfærin; sama hvort um var að ræða gítar, trommur, bassa, þverflautu, píanó, Wurlitzer-píanó (sem er hljóðfæri sem ég fíla í ræmur) eða raddbönd. Svo var rúsínan í pylsuendanum Norah sjálf með sinn heillandi persónuleika, rödd sem smýgur inn eins og fyrirhafnalaust fjólublátt flauel og þokki í þokkabót sem á fáa sinn líkan.

Sat við hliðina á snót sem dillaði sér í takt við tónlistina svo maður sveif með sem aldrei fyrr. Hún lifði sig svo inn í tónlistina að fyrir næst síðasta lagið hljóðaði hún á rússnesku: étrússki (í lauslegri þýðingu: ég trúi þessu ekki) en hún hafði beðið í ofvæni eftir þessu lagi allt kvöldið og var greinilega farin að óttast að það yrði ekki tekið.

Svo þegar heim var komið ræddum við Björn og Kristín saman um tónleikana en við Kristín erum sammála um það að ef við ættum að velja okkur tónleika úr öllu því úrvali tónlistarmanna sem til er í heiminum þá yrði Norah Jones líklega efst á óskalistanum. Ef ekki efst þá allavega næst efst. Heppin? Mangetak for meget í aften.


mbl.is Norah Jones í Laugardalshöll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband